6.okt.2011
Ef þið notið tengingar ykkar til að ná að slaka á þá er það æðislegt og með því betra sem þið getið gert fyrir ykkur sjálf til að losa út streitu og þreytu.
Leyfið huganum ykkar að bera ykkur hvert á land eða hvert í heim sem er og finnið hvernig ímyndunaraflinu er gefninn laus taumur og þá munuð þið fara á ókannaðar slóðir og ná jafnvel að kalla fram tilfinningar sem þið hafið bælt og grafið niður. Ekki stjórna huganum heldur bara flakka og fara hvert sem ykkur girnist.
Við skulum vinna með bleikan lit í dag, lit kærleikans. Kærleikurinn er mér ofarlega í huga því að hann er eitt af því sem mestu máli skiptir að halda á lofti í lífinu og sérstaklega núna á þessum tímum sem þið gangið í gegnum.
Það er ekki nóg að fá brauð og mat ef enginn kærleikur, náungakærleikur og kærleikur til ykkar sjálfra er í brjóstum ykkar. Virkið hann, leitið hann uppi.
Hugsið um það sem er ykkur kærast og finnið hvernig hjartastöðin ykkar dafnar við það, finnið tilfinninguna líkamlega og andlega og staldrið við, finnið hana og stoppið í henni þannig að hún fái að dafna og lifa með ykkur en ekki gleymast í hraðanum sem einkennir ykkar líf.
Þá er nauðsynlegt að hugsa aðeins um hvort þið hafið gert gott í dag? Gott gagnvart ykkur sjálfum, hafið þið hugleitt orðin sem þið hafið látið út úr ykkur, hugsanirnar sem þið hafið sent út í heiminn. Eru þær fallegar og góðar eða hafa neikvæðar slæðst með. Þurrkið út neikvæðar hugsanir, snúið þeim yfir í andhverfu sína og temjið ykkur jákvæða hugsun.
Það tekur stundum svolítinn tíma en allt er hægt og það kemur fljótlega ef fólk er meðvitað um hvernig máttur hugans er og hvað þið getið í raun haft mikil áhrif á ykkar huga ef vilji er fyrir því.
Hafið þið gert gott gagnvart öðrum? Hafið þið hugsað fallega um aðra eða til annarra, beðið fyrir einhverjum í dag, hjálpað einhverjum í dag.
Faðmað einhvern af mikilli hlýju og gefið af ykkur. Klappað dýrunum eða strokið þeim blíðlega og sett ást í hreyfinguna. Það er gott að gefa af sér og það er gott fyrir ykkur að virkja tilfinningarnar, góðu tilfinningarnar með því að setja þær í verkin, setja þær í hugsanir ykkar og leyfa þeim að verða stór partur af ykkar lífi.
Smá skref í upphafi geta orðið að langhlaupi þegar upp er staðið. Haldið áfram á sömu braut og munið að allt sem þið gerið og hugsið skiptir máli.
Umturnið hugsunum og lífi ykkar inn á jákvæðar og fallegar brautir og þið munið sjá hvernig ykkur fer að líða betur.
Góð orka laðar til sín góða orku. Þetta er svo einfalt í eðli sínu en ekkert er í raun einfalt fyrr en maður veit sannarlega af því.
Hugleiðið inn á friðinn, frið í hjartanu ykkar, frið inni í jörðinni og frið á jörðinni. Frið í stríðshrjáðum löndum, frið hjá stjórnmálamönnum, frið í hjarta þeirra og huga.
Friður þýðir ekki bara að vera ekki í stríði, friður er svo mikilvægur eiginleiki. Að geta fundið frið í hjarta sér og huga er alveg nauðsynlegt til að geta slakað á.
Þið þurfið að tóna ykkur niður og leyfa ykkur að gera það að minnsta kosti einu sinni á dag, að eiga stund þar sem þið stillið ykkur niður á friðinn og róna, ekki fyrir framan tæki og tól sem afvegaleiða hugann og veita endalausa afþreyingu sem matar ykkur, heldur er betra að eiga frið með sjálfum sér eða með öðrum, þar sem hugurinn fær slökun, þar sem hjartað fær róandi tilfinningu til að tóna sig niður um smávegis ef þið hafið verið á miklum hraða sem einkennir ykkur og ykkar samfélag.
Farið út, farið í bað, sitjið og hugsið, hlustið á tónlist eða teiknið mynd. Hvað sem er sem veitir ykkur friðþægingu og ró. Munið að róin er mikilvæg, til að ná ró á hugann, til að ná ró á hjartað, til að ná að hugsa skýrar og sjá hlutina í réttu ljósi getið þið ekki þeyst áfram á hraðanum án þess að slaka á.
Þið þurfið að undirbúa ykkur undir það sem eftir er af lífi ykkar, þið þurfið að taka meiri þátt í ykkar eigin lífi en ekki vera bara peð sem umheimurinn stjórnar og þið fylgið bara með.
Hvar eruð þið á bak við allt sem samfélagið hefur skapað í kringum ykkur?
Finnið rótina á sjálfum ykkur og finnið hvaða leiðir þið sjálf í raun og veru viljið fara, finnið ykkar kjarna. Biðjið um hjálp og þið munuð fá hana, leiðsögnin er alltaf til staðar en eins og ég hef sagt áður þá þarf að vilja heyra og vilja sjá. Látið ykkur skipta máli, látið ykkur finna að þið skiptið sjálf ykkur máli og hættið að velta því fyrir ykkur hvað öðrum finnst og hvað ókunnugum finnst um þær leiðir sem þið farið með ykkur sjálf.
Þið lifið hér fyrir sjálf ykkur, látið gott af ykkur leiða og notið tímann vel til að þroska ykkur, þróa ykkur , læra og gefa, kenna öðrum. Það er það sem skiptir máli.
Varðandi eldgosið í Kötlu sem svo margir hafa áhyggjur af hér þá er hægt að segja að hún muni koma með skot og bresta, það kemur gos en við getum ekki sagt ykkur nákvæmlega hvenær það verður eða hvernig því við erum ekki svo mikið að stilla okkur inn á orku fjallsins eða tímasetja hluti á þennan hátt.
Önnur eldfjöll munu gjósa en Ísland er ekkert sér á báti varðandi náttúruhamfarir eða eldgos.
Það þarf að hafa áhyggjur af hitabreytingum og kulda. Ósonlagið ykkar hefur breyst og þið verðið að undirbúa ykkur undir að veðurfar getur breyst í þeirri mynd sem þið þekkið það. Stólið ekki á að veðrið haldist eins og það hefur gert í langan tíma. Ísland mun þó standa vel að vígi í framtíðinni náttúrufarslega séð og engar áhyggjur sem þið þurfið að hafa af því, það verður vel byggilegt og langt er í að við sjáum fyrir matarskort eða annan skort á landinu sem gæti farið að valda því að fólk gæti ekki búið þar.
Setið fyrir svörum að handan.
Setti beinar spurningar fram fyrir miðilin með skriftirnar til að stýra umræðunni og að fram kæmu myndræn brot með svörunum.
Spurning: Hvað er best að gera úr því að ekki má lengur ræða trúmál í skólum landsins hvorki fyrir þau minnstu eða eldri vegna fjölmennra trúarbragða?
Svar: Farið til baka með tímann og skoðið hvernig hlutirnir hafa verið settir í samhengi í öðrum löndum þegar það hefur ekki mátt ræða trúna og stjórnmálin fara að skipta sér af. Það er allt gott við að mega ekki ræða bara eina tegund af trú því ekki er ein trú réttari en aðrar. Á meðan boðskapur trúar ykkar er góður og réttur að því leytinu til þá ætti ekki að skipta máli hvernig trúin er sett fram eða hvernig hún er rædd.
Foreldrar þurfa að bera ábyrgð á sínum börnum og finna hvernig þeir finna bestu nálgun í að ræða þessi mál og fræða börnin sínum um það sem er rétt og rangt í heiminum og lífinu. Margir vilja styðjast við bækur og boð og bönn og er það vel ef boðskapurinn kemst réttur til skila.
Spurning: Hvernig er best að þétta kærleikinn og trúna hér á landi?
Svar: Best að boða trú og von og kærkleika með því að fræða börnin okkar og gera þau meðvituð um að hver hugsun skiptir máli, hver tilfinning sem fer í gegnum þeirra hjartastöðvar og allt sem þau gera eiga þau að vanda sig við að gera. Það á að vanda sig í samskiptum, það á að hugsa vel um sjálfið og passa að bera virðingu fyrir heilsunni og huganum.
Það þarf að kenna sumum eins og þeir séu enn börn því margir hafa verið svo afvegaleiddir í sínu uppeldi og vilja ekki fara eftir því sem þeir vita innst inni að er rétt, því þeir neita að trúa og eru fastir í veraldlegum hlutum.
Best er að boða þetta í litlum skömmtum til að geta náð til sem felstra. Þeir sem eru á réttri braut þær sækja fróðleikinn sjálfir og fá leiðbeiningu en best er að kynna þetta fyrir þeim vantrúuðu með því að láta þá fá litla hluti til umhugsunar sem gætu valdið hugarfarsbreytingum smátt og smátt.
sýn miðils"Á meðan hann fer yfir þessi tvö atriði þá eru mér sýndar margar gamlar bækur og er eins og sumar þeirra séu settar fyrir framan mig. Ég kann ekki skil á bókunum en sé að þær eru ævagamlar og með brúnni og skældri kápu.
Farið er með mig til baka langt aftur í tímann. Ég sé fólk (karlmenn) tala við börnin sín og sýna þeim myndir í bókum eins og einhvers konar fræðsla eigi sér stað.
Spurning: Mér sýndist hafalda frá Kanaríeyjum þegar hluti fjalls féll í sjó fram og skapa gríðar öldu sem færi þvert yfir hafið á ógnar hraða alveg til Californiu og setti ég þetta inn í spána mina.
Svar: Kalifornía er og verður miðstöð fyrir mikla og öðruvísi orku. Þar er mikil spilling og fólk er í vandræðum með sjálft sig og með hvert það er að fara í lífinu.
Náttúrumhamfarir af ýmsum toga eiga eftir að hafa áhrif á jörðina og fólkið á jörðinni því ein jörðin er að gefast upp og það er svo mikil spenna sem losnar um með miklum umbrotum sem hafa afleiðingar.
Tsunami bylgjur gætu farið víða á land þar sem þær hafa ekki áður farið og er hafið og lífríki þess að breytast með tilkomu breytingar á mikilli orku sem er að koma til og er byrjuð að koma til jarðarinnar og þið hafið fundið og vitið af.
Sýn miðils: Gylltar strandir, löng strandlengja með gylltum sandi. Sé nær mér mannfjölda að ganga eftir göngustígum eða götu við strönd í borg. Mikill hraði á fólkinu og asi, enginn lítur upp, það er eins og allir séu bara að hugsa um sjálfan sig að æða hratt áfram.
Farið er með mig annað, ég sé eins og klett brotna hátt uppi en sé ekki hvar hann lendir, bara sé sprunguna og þegar hann losnar frá, gerist fyrst hægt (sprungan) en svo brotnar hann af með meiri hraða. Mér eru sýndar stórar öldur úti á hafi en fæ ekki að sjá þær lenda á landi neins staðar.
Spurning: New York því bæði ég fyrir 2 árum og fleirum finnst borgin illa farin eftir hamfarir??
Svar: New York er og verður í sárum eftir það sem hefur gerst og mun gerast þar.
Hryðjuverk hafa verið unnin og orkan þar er alls ekki í lagi en inn á milli eru þar fólk sem er að reyna að breyta rétt og boða út bosðkap sem fleiri ættu að hlusta á og meðtaka.
Það mun þó ekki ná nema til brota brots af þeim sem dvelja í þeirri borg og ég sé fyrir mér að það verði þungt yfir borginni sökum peningamarkaðs og borgarar í borginni munu rísa upp og efna til styrjaldar sem hefur áhrif á alla sem þar búa.
sýn miðils:Ég sé yfir New York borg, eins og ég sé að fljúga yfir borgina. Ég sé margar byggingar, sumar þeirra eru háar og Frelsisstyttuna í fjarska frá byggingunum.
Það er eins og grá slikja eða mistur yfir borginni og ég sé ekki fólk, enda er ég í fjarlægð og er eins og svífandi fyrir ofan. Ég sé bara endalausan gráan lit bæði á húsum og öllu umhverfi.
Eins og grái liturinn umlykji allt og það sjáist varla í gegnum hann. Ég veit ekki hvort það er verið að sýna mér mengun, að þetta sé borgin eins og hún er í dag eða hvort þetta er einhver orka sem er yfir borginni núna eða í framtíðinni.
Spurning: Ég var búinn að sjá fimbulfrost og óveður víða í Evrópu 2011
Svar: Hafið og himinhvolfin ykkar eru að breytast. Getur verið að þetta sé að hafa áhrif á veðurfar? Já það hefur það en smátt og smátt munuð þið sjá heitari sumur og kaldari vetra.
Snjór og frost munu setja mark sitt á líf ykkar á norðuhveli jarðar og Evrópu, norðanvegin við miðbaug verða miklir kuldar og frost og fólk þarf að búa sig vel og passa upp á viðkvæm hús þar sem ekki allar lagnir ráða við frostið og kuldann og gæti því mörgum orðið kalt og það gæti farið illa með suma.
Hafið er að breyta stefnum sínum á ákveðnum stöðum en það er í svo litlum mæli núna að vísindamenn eiga erfitt með að greina breytingarnar strax en það mun þó smátt og smátt sjást að breytingar eiga sér stað og er hægt að sjá það á lífríki hafsins og þeim sem lifa þar að þeir eru farnir að breyta stöðum sínum og færa sig til.
Fiskar og aðrar verur eru farnar að vera þar sem þær hafa ekki verið áður og fara smátt og smátt af þeim stöðum þar sem áður hentaði þeim að vera og ættu vísindamenn sem hafa áhuga á þessum efnum að veita því meiri athygli.
Kuldavetur get ég ekki tímasett betur en svo að þið munuð finna smátt og smátt breytingu og fyrr en varir skellur á ykkur frost. Hafið þó ekki áhyggjur.
Sýn miðils: Miklir kuldar, fólk að ganga eftir götum með trefil upp í háls og kappklætt, heldur um sig og fólk gengur um rjótt í kinnum og mikill strókur kemur út úr munninum eins og í miklum kulda. Geri mér ekki grein fyrir umhverfinu, ekki á Íslandi, frekar í borg eða bæ annars staðar í heiminum.
Mikið frost og snjór yfir öllu og klaki víða. Sé hafið, hafstrauma í sjónum, eins og hringiður. Sjórinn er dökkur á lit, sægrænn en dökkur eins og á miklu dýpi. Það er ólga í honum en ekki mikið brim. Inn á milli sé ég hringiður.
Góðar stundir og sýnið hvort öðru umhyggju og velvilja.
Þór Gunnlaugsson
Heilunar og transmiðill
Er einnig á lækningasviðinu
____________________________________________________
Farið inn á Gestabók, farið neðst á síðuna og skrifið ósk ykkar um að ég leiti eftir svörum við spurningum ykkar frá vinum okkar að handan.
Þetta getur ekki orðið einfaldara að hafa samband við mig.
.
GESTABÓK.