laugardagur, 13. febrúar 2016

ÆVISAGA GUÐNA SVEINS 3 KAFLI

3 KAFLI.

Ég var varla búinn að vera tvo tíma í sveitinni þegar ég var settur á bak á hesti. Ég hafði aldrei séð hest nema á mynd svo ekki leist mér á blikuna, enginn hnakkur og ekkert beisli bara spotti. Hesturinn var feitur gamall og latur og hafði ekki mikið fyrir guttanum sam sat með lappirnar nærri því í splitt á baki hans, svo feitur var hesturinn og Gutti frekar lappa stuttur enda bara sex ára, hesturinn hélt áfram að bíta gras og gekk svo nokkur skref að næstu þúfu til að halda áfram að næra sig.

Ég man enn skelfinguna sem ég upplifði þegar ég byrjaði að halla út á hlið og endaði svo á jörðinni undir kviðnum á hestinum og horfði skelfingu lostinn á tippið á honum sem náði niður í jörð að mér fannst.

Ég skreið í ofboði burtu og kom ekki nálægt hestum næstu dagana á eftir, en síðar urðum við mestu mátar og fór ég í marga reiðtúrana berbakt, og án beislis á þessum nýja vini mínum sem kallaður var Jarpur. Ég var auðvitað índjáninn hann Léttfeti sem þið kannist örugglega við úr sögunum um hann Léttfeta.

Jarpur var á þessum tíma orðinn 30 vetra gamall og slitinn, hann var alltaf þolinmóður við okkur krakkana sama hversu mikið við bröltum á honum.

Er ég lít til baka og fer að rifja upp aðstæður og útlitið á gamla torfbænum kemur upp mynd af lágreistum bæ sem snéri í austur vestur, framhliðin sem snéri til austurs á móti sólaruppkomunni var timburklædd og var timbrið klætt með svörtum tjörupappa, tveir gluggar voru á framhliðinn sitt hvoru megin við dyrnar, hurð var á miðjum gaflinum úr óheflaðri furu með klinku sem lyft var upp úr haki sem var innan á dyrastafnum.

Fyrir framan aðaldyrnar voru grjóthellur sem gangstéttarhellur teknar úr fjallinu fyri ofan bæinn, þar fyrir innan var forstofa sirka 1,5 meter á lengd, og önnur hurð sem opnaðist inn í langan og dimman og gluggalausan gang sem var sirka 5 metrar langur og mjög dimmur, og varð maður oft myrkfælinn er hausta tók og allt var í svarta myrkri og ekkert ljós nema tunglið og stjörnurnar úti.

Innst í ganginum voru dyr á norður og suðurvegg gangsins, þær sem lágu til norðurs voru að eldhúsinu, þær sem snéru til suðurs andspænis eldhúshurðinni voru aðgengi inn í búrið eða geymslu sem öll var úr torfi og rekavið, þar var borð við suðurvegginn undir litlum glugga sem var kanski 30 cm x 30 cm og glerið í honum dökkt af moldarryki svo varla sá út þó bjart væri að degi, á borðinu var handsnúinn mjólkurskilja sem notuð var til að gera t.d. Smjör.

Einnig voru þar inni þrjár stórar tré tunnur fullar af sýru og í þeim slátur og annar súmatur og saltkjöts tunnur. Á þessum tíma var súrmaturinn svo til uppurinn eftir veturinn og þurfti að hella úr tunnunum og hreinsa þær og fá nýja sýru og gera klárt fyrir næsta vetur. Hundar og menn gæddu sér á gromsinu sem kom úr tunnunum af bestu list. Þá smakkaði ég blóð slátur steikt á pönnu með sykri í fyrsta skipti og át það með bestu lyst enda ansi oft svangur á þessum tíma.

Við inganginn var gengið inn í svo kallað þvottahús um leið og maður kom inn úr aðaldyrunum. Þar sá ég aldeilis gamaldags þvottavél, hún var risastór pottur sirka 60 cm í ummál og annað eins djúpur, þvert ofan á þessum potti var einskonar stór spaði sem náði ofan í vatnið þvert yfir pottinn og á þessu spaða var sveif sem ég átti eftir að hanga í þegar Sigga frænka þvoði stórþvott, cirka einu sinni í mánuði eða svo, ekki má gleyma þvottabrettinu og grænsápunni og svo var þvotturinn barinn eins ég veit ekki hvað með priki og settur í bala með köldu vatni til að skola hann eftir suðuþvottinn. Undir pottinum var eldhólf sem kveikt var upp í og náð var í vatn út í bæjarlækinn, við krakkarnir urðum að brjóta rekavið í eldinn og var kynt með honum, það tók eina þrjá tíma að fá suðu á vatnið í þessum stóra grílupotti.

Ég stóð upp á kassa og þvældi og hlustaði á Siggu frænku syngja hástöfum með sinni skerandi og háu sópran Allt rödd og var hávaðin slíkur að öll dýr hlupu í skjól þegar hún hóf upp rödd sína, sem hún sagði að væri ekki síðri en röddin hjá Guðrúnu Á Símonar sem var einhver popp gella í kringum 1961, nema Sigga frænka var sko með svo mikið betra víbratór en Guðrún, enda lamdi hún á sér barkakílið með fingrunum þegar hún tók hæðstu tónan og mynnti mig á bilaða harmonikku með sprungin belg.

Hundarnir tóku vel undir og spangóluðu eins og varúlfar í tunglsljósi á heiðskýrri nót, hænurnar stilltu upp í línudans og allt fór á fullt í dýralífinu á bænnum.

Eftir þvottin var svo þvotturinn undinn og stóð ég á móti Siggu frænku og hélt dauðahaldið í endan á móti henni og hún snéri af öllum kröftum og hætti ekki fyrr en komnir voru tveir snúningar upp á handlegina á mér. Síðan var farið með þvottin út á gaddavírs girðinguna sem var rétt við bæinn og þvotturinn hengdur þar til þerris.

Maður var alveg búinn eftir svona þvotta daga og stór tónleika. Það skal sagt um Siggu frænku til lofs að hún var karlmaður að burðum og ansi lipur því hún átti það til að svipta pylsinu upp á mitti og skella sér í splitt þar sem hún stóð hvort sem var inn í eldhúsi eða úti á túni mér og öðrum til mikillar skemmtunar. Skemmtilegast var það samt hvað hún var lengi að standa upp og valt hún stundum á hliðina og vældi eitthvað á frönsku.

En nú er komið kvöld og skal til rekkju ganga.

Góða nótt.

Góðar stundir og sýnið hvort öðru umhyggju og velvilja.

Þór Gunnlaugsson
Heilunar og transmiðill
Er einnig á lækningasviðinu


____________________________________________________

Farið inn á Gestabók, farið neðst á síðuna og skrifið ósk ykkar um að ég leiti eftir svörum við spurningum ykkar frá vinum okkar að handan.

Þetta getur ekki orðið einfaldara að hafa samband við mig. .


GESTABÓK.