þriðjudagur, 13. október 2015

Þú spyrð um sannleika varðandi orkustöðvarnar.

Góðar stundir 29.10.2011

Þær eru þarna, þær skipta líkamann ykkar og andlega líkamann verulegu máli. Hlutverk þeirra, þær hafa hver fyrir sig mörg hlutverk og gegna þeim án meðvitundar okkar. Ekki þurfið þið að kafa djúpt í að skilja hvernig hver og ein vinnur heldur skiptir máli að vita hvæar þær eru staðsettar, og kunna að hreinsa þær, kunna að virkja þær.

Fyllið þær af ljósi og látið ljósið hreinsa, látið hjartastöðina finna hvort það er eitthvað sem þeið eigið eftir að heila og hreinsa í henni sjálfri, hún tengist tilfinningum og tilfinningar tengjast oft samskiptum.

Hvaða samskipti hafið þið átt sem hafa skilið eftir sig í hjartastöðinni eitthvað sem þarf að endurvarpa huganum á og hreinsa út úr henni. Hvaða samskipti og tilfinningar hafa myndast í kringum þau sem hafa hjálpað hjartastöðinni að vaxa og þroskast.

Skoðið samband milli foreldra og barna til dæmis, hugsið um börnin ykkar með hjartanu ekki með huganum og látið hjartastöðina vaxa og dafna á þann hátt með því að hugsa um aðrar manneskjur eða dýr sem eiga stóran þátt í því að skapa hvernig tilfinningaverur þið eruð.

Ef þið rekist á hugsanir sem tengjast öfund, græðgi, hatri, almennum pirring eða þið finnið eins og þið dökknið og það kemur einhvers konar drungi yfir ykkur eftir að hafa hugleitt inn á samskipti sem hafa valdið þessum tilfinningum þá er spurning um að skoða það betur og fara dýpra og þið ættuð að biðja um hjálp við að laga það.

Ekki burðast með vonbrigði, reiði eða annað slíkt út í ykkur sjálf eða aðra því það heldur aftur af þroska og vexti ykkar og veldur stöðnun.

Þið viljið fá að vita meira, það er gott. Þorstinn í fróðleik er af hinu góða og svörin ættu að kalla á meiri þorsta eftir að fá að vita enn meira.

Ykkur er sýnt eins mikið og sagt eins mikið og þið ráðið við í það skipti, við megum ekki grípa fram fyrir þroskaferlið hjá ykur því þið þurfið að læra hlutina sjálf og megið ekki bara lesa það eins og í bók því þá er tilgangnum ekki náð.

Þið hafið valið ykkur að fara ákveðinn veg, hver fyrir sig og upplýsingarnar sem þið megið fá eru ekki alltaf það sem ykkur langar að vita í það skiptið því hugurinn hleypur á undan ykkur og ykkur langar að vita allt.

Opnið fyrir orkuflæði á milli orkustöðvanna ykkar, leyfið því að flæða óhindrað á milli og mynda heild sem er með kjarna víðast hvar þar sem orkustöðvarnar sjálfar eru staðsettar.

Víkkið út sjóndeildarhringinn ykkar með því að leyfa ykkur að dreyma, ímyndun og dagdraumar hjálpa ykkur að þróa og þroska með ykkur þriðja augað og hafið ekki áhyggjur af því hvað er ímyndun og hvað ekki. Þegar maður er að æfa sig þá skiptir það ekki öllu máli enda er ímyndun oft af hinu góða og gerir ekkert annað en að halda ykkur á réttri braut.

Enda er nauðsynlegt að vera lifandi og eiga sér drauma og þið eigið sannarlega að sjá fyrir ykkur þegar draumarnir ykkar rætast og leyfa því að taka á sig mynd í kollinum á ykkur því að skýrir markmiðin betur og þið munuð þá frekar feta ykkur inn á þær slóðir að ná þeim.

Ég hef sagt ykkur að halda ykkur á jákvæðum brautum, jákvæð orka er það sem þið þurfið að einbeita ykkur að á þessum tímum. Orkan í kringum ykkur og í ykkur hefur breyst og er að breytast enn og mun halda því áfram þar til hámarkinu verður náð. Ég mun ekki gefa tímasetningar sem munu ýta undir kvíða og valda því að þið gleymið því að það er ferðalagið að þessum tíma sem er að skipta máli en ekki hver útkoman verður þá, þið fáið að vita áður en að því kemur hvenær tíminn er og hvað þið eigið að gera.

Núna skiptir máli að breyta orkunni í huganum og hjartanu og láta kærleikann flæða á milli ykkar.

Myndið með ykkur hringi, þar sem þið notið kærleikann og leyfið honum að magnast upp og flæða. Hugleiðið á sama tíma, látið orkuna magnast upp með fjöldanum.

En gerið það líka í sitthvoru lagi og látið ljósið og þá yndislegu orku sem fylgir ljósinu og kærleikanum ná yfirhöndinni yfir kvíða og áhyggjur, yfir neikvæðni, sorg og reiði, yfir eftirsjá því þurfið sannarlega ekki að hafa eftirsjá og eigið að sleppa hendinni af slíkum hugsunum og tilfinningum og biðja um hjálp við að hreinsa þær frá ykkur og losna við slíkt sem veldur ykkur eingöngu vanlíðan og dregur úr ykkur.

Sjáið fyrir ykkur að þið séuð gangandi ljós, að þið leyfið ykkur að flæða. Að þegar þið hittið annað fólk að þá leyfið ljósinu ykkar að flæða um herbergið og leyfið því að fylla annað fólk líka. Fáið fólk til að hugsa jákvætt með ykkur með því að benda þeim á að fara jákvæðu leiðina að því sem það er að gera

Með tímanum þurfð þið svo að læra meira en grunnurinn er að halda sér inná brautinni þar sem trú og staðfesta, kærleikur og góðmennska ræður ríkjum.

Smávægileg atriði eins og láta eitthvað smáatriði fara í taugarnar á sér eins og þið orðið það, að láta smáatriði eða eitthvað í fari annarra hafa neikvæð áhrif á hvernig ykkur sjálfum líður er eitthvað sem þið þurfið að læra að breyta og sleppa takinu á.

Þetta er bara vani, eitthvað sem samfélagið ykkar hefur kennt ykkur með dómhörku sinni og formfestu á hvernig hlutirnir eigi að vera en í stað þess að horfa með opnum augum á hvernig hlutirnir eru raunverulega og samþykkja það með opnum hug.

Biðjið og verið þakklát fyrir það sem þið hafið, því innst inni ef fólk leiðir hugann að því þá eru allir þakklátir fyrir það sem þeir hafa. Allir hafa hluti sem þeim þykir vænt um, hluti sem þeir geta fundið að í hjartanu skipta þá svo miklu máli og notið þessa hluti til að byrja á að finna þakklætið, finna kærleikann gagnvart því fólki sem þið elskið.

Þroskið ykkur svo út frá því og sleppið því að dvelja yfir tímum sem eru liðnir, varðveitið minningarnar en ekki dvelja í fortíðinni og dvelja í því sem þið hafið þegar misst.

Ekki dvelja yfir því sem þið eigið ekki, því sem þið viljið öðlast í framtíðinni. Látið frekar svoleiðis hugsanir á jákvæðan hátt í draumana ykkar og setjið ykkur jákvæð og góð markmið með að þið viljið ná þangað seinna meir en lifið í nútíðinni og horfið með réttum augum á það sem er í kringum ykkur nú.

Gleymið ykkur ekki í lesefni sem skiptir ekki máli og munið að skoða ekki bókstaflegar merkingar þess sem ykkur er sagt og þið lesið heldur finnið boðskapinn í því og túlkið fyrir ykkur.

Það má lesa sömu bókina á margan hátt, fer eftir því hver er að lesa og hvaða boðskap hann þarf að fá í það skiptið sem hjálpar honum mest að þroskast. Þannig er það einnig í samskiptum og öðru því sem þið takið ykkur fyrir hendur, þið takið þann boðskap og þá fræðslu úr sem þið eigið að nota í það skiptið.

Nú vil ég miðla þessu til ykkar því ég vil að þið lærið að hugsa upp á nýtt með kærleikanum, þið sem þurfið að læra það. Að leyfa ekki efanum að pota sér inn í allt sem þið gerið heldur halda áfram og leyfa trúnni á hið góða og trúnni á ykkur sjálf að ráða för. Takið til ykkar það sem þið þurfið að læra, það eru einhverjir sem vita þetta en aðrir sem finnst gott að láta minna sig á og finna að þeir þurfi smá staðfestingu á að þeir séu að gera rétt og að þeir séu á réttri braut.

Þið hafið oft svo miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnst og hafið áhyggjur af því hvað ykkur sjálfum ætti að finnast en gleymið því og verið þið sjálf og stolt af því að vera hver þið eruð og munið að þið hafið öll tilgang og ekki láta efa og skort á sjálfsöryggi koma í veg fyrir að þið finnið ykkar tilgang.

Góðar stundir og sýnið hvort öðru umhyggju og velvilja.

Þór Gunnlaugsson
Heilunar og transmiðill
Er einnig á lækningasviðinu


____________________________________________________

Farið inn á Gestabók, farið neðst á síðuna og skrifið ósk ykkar um að ég leiti eftir svörum við spurningum ykkar frá vinum okkar að handan.

Þetta getur ekki orðið einfaldara að hafa samband við mig. .


GESTABÓK.